Erlent

Mikil flóð á Spáni

Átta létu lífið, þar af tvö börn, í miklum flóðum í suðurhluta Spánar í gær. Sex hundruð, hið minnsta, hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Óvenjumikil úrkoma mældist á svæðinu í gær eftir nokkurra mánaða þurrka, en héröðin Malaga, Murcia og Almeria í suð-austurhluta landsins hafa orðið einna verst úti. Á meðal látinna eru tvö börn, stúlka og drengur, sem drukknuðu í bænum Puerto Lumbreras þegar vatn flæddi inn í bíl sem þau voru farþegar í. Þrjú lík fundust í nótt, þar á meðal af miðaldra konu í bænum Lorca. Þá er tveggja saknað í Almería, karlmanns og breskrar konu á sextugsaldri.

Hvirfilbylur fór um bæinn Gandia í gær og slösuðust þrjátíu og fimm þegar parísarhjól féll á hliðina, þar af eru fimmtán taldir alvarlega slasaðir.

Víða hefur flætt inn í hús og hefur vatnsflaumur hrifið með sér bíla og eyðilagt vegi. Áttahundruð manns vinna nú við björgunarstörf í Malaga, sem er vinsæll ferðamannastaður, en þar hafa samgöngur í bæði lofti og á landi farið úr skorðum. Þá hafa lestarsamgöngur milli höfuðborgarinnar og Valencía legið niðri. Enn rignir en úrkoman stefnir nú í átt að Katalóníuhéraði og eyjunum Mallorca, Menorca, Ibiza og Formentera, sem margir Íslendingar sækja heim ár hvert, samkvæmt veðurspá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×