Innlent

Ákvörðun um gæsluvarðhald í fíkniefnamálinu tekin í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá vettvangi í Efstasundi í gær.
Frá vettvangi í Efstasundi í gær.
Karlmaður á fimmtugsaldri, sem handtekinn var í gær vegna fíkniefnamálsins í Efstasundi, er enn í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn málsins. Ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir manninum verður tekin síðar í dag. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og verst lögreglan því allra frétta af því.

Eins og kom fram í tilkynningu lögreglunnar í gærkvöld fann hún búnað til framleiðslu fíkniefna í bílskúr í austurborg Reykjavíkur síðdegis i gær. Lagt var hald á tæki og tól sem og efni til að framleiða fíkniefni en unnið var að því með aðstoð sérfræðinga frá Háskóla Íslands og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að fjarlægja búnaðinn af vettvangi.

Talið er að amfetamín hafi verið framleitt í bílskúrnum en húsráðandi, karl á fimmtugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og vistaður á lögreglustöð. Engin sprengihætta var samfara þeim aðgerðum lögreglu sem að framan var lýst.


Tengdar fréttir

Engin sprengihætta vegna amfetamínverksmiðjunnar

Lögreglan upprætti í gærkvöldi amfetamínverksmiðju í bílskúr í Efstasundi í Reykjavík. Töluverður viðbúnaður var vegna málsins og var hluta götunnar lokað, enda um afar eldfim efni að ræða í slíkri framleiðslu.

Lögreglan með mikinn viðbúnað

Aðgerðir lögreglunnar í tengslum við amfetamínverksmiðju í Efstasundi í Reykjavík eru nokkuð umfangsmiklar og hafa staðið yfir í allt kvöld, samkvæmt upplýsingum Vísis.

Grunaður fíkniefnaframleiðandi með leikskólabarn á heimilinu

Aðgerðir lögreglunnar og slökkviliðsins vegna amfetamínverksmiðjunnar í bílskúr í Efstasundi stóðu yfir í að minnsta kosti hálfan sólarhring, samkvæmt heimildum Vísis. Maðurinn sem grunaður er um að bera ábyrgð á framleiðslunni er tæplega fimmtugur fjölskyldumaður með barn á leikskólaaldri á heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×