Enski boltinn

Rooney: Ronaldo elskar sína eigin spegilmynd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney segir í bók sinni að hann hafi aldrei hitt knattspyrnumann sem hafi meira sjálfstraust en Cristiano Ronaldo.

Þeir voru samherjar hjá Manchester United áður en sá síðarnefndi fór til Real Madrid árið 2009. Rooney fjallar um samband þeirra í væntanlegri bók sem fjallar um hans fyrsta áratug í ensku úrvalsdeildinni.

„Á þeim tíma sem ég spilaði með Ronnie tók ég helst eftir því að hann getur ekki gengið framhjá spegli án þess að dást að því sem hann sér," segir í bókinini.

„Hann hefur sína rútínu fyrir hvern leik. Hann klæðir sig í búninginn, reimar á sig skóna og stuttu síðar starir hann í spegilinn og kemur sér í gírinn."

„Ég hef ekki hitt þann knattspyrnumann sem býr yfir meira sjálfstrausti en Ronaldo. Hann er ekki feiminn."

Á HM í Þýskalandi árið 2006 lenti þeim saman í fjórðungsúrslitum Englands og Portúgals. Rooney fékk rautt fyrir að traðka á Ronaldo.

„Ég vissi um leið að ég gat ekki kennt Ronaldo um þetta vegna þess að hann var að reyna að vinna leik fyrir þjóð sína."

„Ég rakst á hann í göngunum eftir leik og varaði hann við því að fjölmiðlar myndu gera mikið úr þessu. Hann hafði fullan skilning á því enda skýr strákur. Stuttu síðar var hann sagður á leið til Real Madrid í blöðunum sem sögðu einnig að við værum hættir að ræðast við. Það var auðvitað algjör þvættingur."

„Sannleikurinn er sá að mér líkar vel við Ronaldo. Mér hefur alltaf líkað vel við hann. Hann er góður drengur og frábær í búningsklefanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×