Enski boltinn

Hodgson vonast til þess að John Terry sleppi við refsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson og John Terry.
Roy Hodgson og John Terry. Mynd/AFP
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins í fótbolta, segist vonast til þess að aganefnd enska knattspyrnusambandsins refsi ekki John Terry fyrir framkomu sína í leik á móti Queens Park Rangers fyrir tæpu ári síðan.

John Terry var kærður fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand, leikmanni QRR, í leik Chelsea og QPR 23. október 2011. Terry var sýknaður í dómsmálinu í sumar en enn á eftir að koma í ljóst hvort að hann fái leikbann eða sekt hjá enska sambandinu.

„John verður vonandi sýknaður eins og fyrir dómstólunum og ég vona að hann haldi líka áfram að spila með enska landsliðinu," sagði Roy Hodgson.

„Þetta er mín von en ég hef enga hugmynd um hver niðurstaðan verður," bætti Hodgson við.

„Ég er ekki tilbúinn að ræða mál Johns frekar. Það mál er inn á borði hjá enska knattspyrnusambandinu og allt sem ég segi núna gæti verið mistúlkað," sagði Hodgson.

„Mér fannst John spila vel á Evrópumótinu í sumar og ég vil halda áfram að nota hann með landsliðinu. John gerir sér samt grein fyrir því að málið er ekki lengur í mínum höndum," sagði Hodgson.

„Ég er bara í sömu sporum og allir stuðningsmennirnir hans og öll vonum við að John verði sýknaður og haldi áfram að spila með landsliðinu," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×