Sport

Federer í úrslit eftir maraþonviðureign

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Federer fagnar á Wimbledon í dag.
Federer fagnar á Wimbledon í dag. Nordicphotos/Getty
Svisslendingurinn Roger Federer tryggði sér í dag sæti í úrslitum einliðaleiks karla í tennis á Ólympíuleikunum eftir maraþonviðureign gegn Juan Martín del Potro frá Argentínu.

Viðureign kappanna tók tæpa fjóra og hálfa klukkustund en oddasettinu ætlaði aldrei að ljúka. Kapparnir héldu uppgjöf sinni í settinu allt þar til Federer braut uppgjöf Del Potro og komst yfir 18-17.

Svisslendingurinn gekk á lagið í uppgjafarlotu sinni sem var um leið sú síðasta og hafði sigur 19-17.

Argentínumaðurinn, sem raðað var áttundi í mótið, vann sigur í fyrsta setti 6-3 en Federer svaraði í öðru setti sem fór í oddalotu 7-6.

Þá tók við maraþonsettið sem áður var minnst á. Síðar í dag kemur í ljós hverjum Federer mætir í úrslitum en þá eigast við Serbinn Novak Djokovic og heimamaðurinn Andy Murray í undanúrslitum.

Federer vann Wimbledon-mótið á dögunum eftir úrslitaleik gegn Murray en í undanúrslitum lagði hann einmitt Djokovic. Tenniskeppni Ólympíuleikanna fer fram á völlunum í Wimbledon.

Federer, einn sigursælasti tenniskappi allra tíma ef ekki sá sigursælasti, hefur aldrei orðið Ólympíumeistari. Hans besti árangur var fjórða sæti í Sidney árið 2000.

Rafael Nadal, sem átti titil að verja frá því í Peking fyrir fjórum árum, þurfti að draga sig úr keppni í aðdraganda leikanna vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×