Innlent

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði áhyggjuefni

Þorbjörn Þórðarson skrifar


Fjöldi þeirra sem hefur þegið bætur í 12 mánuði eða lengur er áhyggjuefni að mati forstjóra Vinnumálastofnunar. Þá er ekki útilokað að atvinnuleysið aukist aftur í haust þegar tímabundnum aðgerðurm stofnunarinnar lýkur en atvinnuleysi mælist nú 5,2 prósent.

Hagstofan birti fyrir helgi nýja vinnumarkaðsrannsókn sem gerð var vegna júnímánðar. Atvinnuleysi mælist 5,2 prósent og er það 0,4 prósentustigum frá tölum sem Vinnumálastofnun hafði áður birt fyrir sama tímabil.

Hér sést svo lækkun atvinnuleysis undanfarna tólf mánuði. Gissur Pétursson segir tölurnar í takti við það sem búist var við.

„Atvinnuleysið hefur gengið hratt niður yfir sumarmánuðina en það er rétt að minna á að það er dálítið stór hópur fólks sem er í svokölluðum vinnumarkaðsúrræðum á okkar vegum. Þetta fólk er á styrk frá atvinnuleysistryggingarkerfinu en er engu að síður í vinnu og mælast þess vegna ekki með í þessari mælingu."

Má þá búast við að atvinnuleysi aukist á ný í lok sumars? „Við vonum auðvitað að atvinnulífið sé að taka við sér þannig að það sé eftirspurn sem var fyrir tímabundin störf muni aukast og halda áfram og því vonandi að þetta fólk fái fasta vinnu."

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi minnkað er enn stór hluti sem hefur glímt við langtímaatvinnuleysi, eða fimmtungur allra atvinnulausra.

Langtímaatvinnuleysi er hugtak sem notað yfir þá sem hafa verið án vinnu í 12 mánuði eða lengur. Þeir voru um mitt þetta ár 2.800 eða 21 prósent allra atvinnulausra.

Langflestir þeirra eru á höfuborgarsvæðinu og Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er mest.

Hvaða fólk er þetta? „Það vill gerast að hópur sitji eftir og fái ekki störf við hæfi. Og þarna erum við að tala um greinar sem urðu hart úti í hruninu. Mannvirkjagreinar, ýmiss konar flutningastarfsemi og fleira. Útlendingar eru þarna í stórum hópum og þetta er auðvitað áhyggjuefni," segir Gissur Pétursson. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×