Íslenski boltinn

Þórður fékk áminningu og 25 þúsund króna sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA.
Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA. Mynd/Pjetur
Þórður Þórðarson, þjálfari ÍA í Pepsi-deild karla, fékk í dag áminningu frá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fyrir viðbrögð sín í fjölmiðlum eftir tap á móti KR á KR-vellinum á dögunum.

Þórður gagnrýndi það harðlega þegar KR-ingurinn Kjartan Henry Finnbogason steig, að hans mati viljandi, ofan á hendi Skagamannsins Guðjóns Heiðars Sveinssonar

„Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 8. ágúst 2012 var samþykkt að áminna Þórð Þórðarson þjálfara ÍA vegna ummæla hans í fjölmiðlum eftir leik ÍA og KR í Pepsi-deild karla sem fram fór 30. júlí og sekta jafnframt Knattspyrnudeild ÍA um kr. 25.000 vegna ummælanna," segir í frétt á heimasíðu KSÍ.

Það var Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, sem vísaði ummælum Þórðar til aga- og úrskurðarnefndar í samræmi við 18. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×