Erlent

Benedikt páfi XVI biður fyrir fórnarlömbum

Frá Aurora í dag.
Frá Aurora í dag. mynd/AP
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, heimsækir í dag aðstandendur og eftirlifendur skotárásarinnar á miðnætursýningu nýjustu kvikmyndarinnar um Leðurblökumanninn í Aurora í Coloradoríki. Obama, sem einnig mun funda með yfirvöldum á svæðinu, kallaði eftir því að samlandar sínir biðji fyrir fórnarlömbunum.

Benedikt páfi sextándi hefur vottað fjölskyldum þeirra sem létust í skotárásinni samúð sín. Hann sagði að árásin hefði valdið honum miklu hugarangri.

Árásin átti sér stað á fimmtudaginn. Þá hóf tuttugu og fjögurra ára gamall Bandaríkjamaður, James Holmes, skotárás á sýningargesti. Tólf létust í árásinni en um sextíu særðust, margir lífshættulega. Af þeim sem létust voru allir nema tveir innan við þrítugt. Yngsta fórnarlambið var sex ára gömul stúlka. Er þetta versta fjöldamorðið í Bandaríkjunum síðan árið 2007 þegar maður á þrítugsaldri myrti 32 í tækniháskólanum í Virginíu.

Lögregluyfirvöld í Aurora hafa greint frá því að hafi upphaflega skotið á sýningargesti úr hríðskotabyssu. Hún hafi hins vegar staðið á sér og því greip hann til skammbyssu. Mikil mildi þykir að vélbyssan bilaði enda hefði mannfall orðið mun verra en raun bar vitni.

Þá hefur fundist mikið magn byssuskota í íbúð Holmes. Lögreglumenn hafa nú fengið tækifæri til að skoða íbúðina eftir að sprengjusérfræðingar aftengdu sprengjugildrur sem Holmes hafði skilið eftir. Holmes var handtekinn fyrir utan kvikmyndahúsið og er nú vistaður í einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×