Innlent

Erfitt að átta sig á því hverjir berjast gegn hverjum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Hernaðaraðgerðir erlendra þjóða gegn ríkisstjórn Assads forseta Sýrlands geta haft geysileg ruðningsáhrif í för með sér, að mati sérfræðings í málefnum Mið-Austurlanda.

Sjötíu og sjö hafa fallið í Sýrlandi það sem af er degi, þar á meðal sjö börn. Áætlað er að 17000 Sýrlendingar hafi látið lífið frá því að uppreisnin gegn forseta landsins hófst í mars á síðasta ári og í ljósi hörmunganna velta margir fyrir sér af hverju erlendir aðilar hafi ekki gripið gripið til hernaðaríhlutunar líkt og í Líbíu fyrir um ári.

„Sýrland er bara allt öðruvísi land landfræðilega séð og pólitískt séð. Eðli bardaganna þar eru þannig að erfitt er að skerast í leikinn," segir Magnús Þorkell Bernharðsson, dósent í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum.

Magnús Þorkell segir yfirráðasvæði stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar í Líbíu hafa verið vel aðskilin en í Sýrlandi búa óvinirnir svo til hlið við hlið auk þess sem hermennirnir eru ekki endilega klæddir einkennisbúningum.

„Þannig það væri mjög erfitt fyrir erlenda aðila að koma þarna inn og reyna átta sig á því hverjir eru að berjast gegn hverjum og hvar," segir hann.

Hugsanlegt sé þó að Katar sendi herdeildir inn í landið þar sem þeir voru öflugir í Líbíu á sínum tíma og þá gætu Tyrkir jafnframt nýtt herafla sinn til að tryggja eigin hagsmuni í norðurhlutanum. Magnús Þorkell segir þó andstöðu Kínverja og Rússa gegn erlendri hernaðaríhlutun vega þungt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×