Innlent

Jóhannes í Bónus verður Jóhannes í Iceland á laugardaginn

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Jóhannes Jónsson kaupmaður segist ætla að halda áfram að bjóða upp á lægsta vöruverð á Íslandi, eins og hann hefur gert í tuttugu ár, í nýrri verslun sinni Iceland. Áætlað er að búðin opni á laugardaginn.

Verslun Iceland er í Engihjalla í Kópavogi en í kílómeter radíus frá þeim stað búa jafn margir og á öllum Vestfjörðum.

Unnið hefur verið hörðum höndum að því að undirbúa verslunina síðustu fimm vikur og þegar fréttastofa leit við í dag var verið að raða í hillur af miklum móð. Jóhannes Jónsson kaupmaður áður kenndur við Bónus segir undirbúninginn hafa gengið vel.

„Við stefnum á að vera mjög neðarlega í verði og ég er nú búinn að reka verslun í 20 ár sem var með lægsta vöruverð á Íslandi og ég mun halda áfram á þeirri braut," segir Jóhannes.

Þannig þú ætlar í beina samkeppni við Bónus?

„Jájá, ég setti upp Bónus og rak með góðum árangri, og svo var okkur vísað á dyr þar, og ég mun halda áfram á þeirri braut sem mér hefur gengið hvað best."

Meðal nýjunga eru frystivörur frá Iceland keðjunni svo sem forsnar máltíðir og meðlæti. Þá verður einnig opnuð netverslun þar sem hægt verður að kaupa þyngri og umfangsmeiri vörur gegn þúsund króna heimsendingargjaldi um allt land.

„Frá því að ég var barn hef ég verið í matvöruverslun og ég uni því mjög vel, og horfi björtum augum til framtíðar og ég er kominn yfir þessi veikindi sem ég gekk í gegnum og mér líður vel hvern einasta dag," segir hann.

Áætlað er að opna verslunina klukkan ellefu á laugardagsmorgun og segist Jóhannes hlakka til að opna dyrnar ásamt meðeiganda sínum Malcolm Walker.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.