Innlent

Laumufarþeginn kominn til Bandaríkjanna

BBI skrifar
Hælisleitandinn laumaðist um borð í skipið í Reykjavík.
Hælisleitandinn laumaðist um borð í skipið í Reykjavík. Mynd/Stefán
Hælisleitandinn sem fannst um borð í bandaríska rannsóknarskipinu Knorr í síðustu viku er kominn á land í Bandaríkjunum. Mál hans eru nú í höndum bandarískra stjórnvalda. Frá þessu var greint á vef Ríkisútvarpsins.

Boltinn er nú hjá bandarískum stjórnvöldum sem þurfa að gera upp við sig hvort þau veita honum hæli þar í landi eða reyna að senda hann aftur til Íslands. Þetta segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. Hún telur ólíklegt að málið fái nokkurs konar flýtimeðferð þar ytra. Það þýðir að enn gætu liðið nokkrir dagar eða vikur þangað til fyrir liggur hvar þessi maður mun enda. Ef bandarísk stjórnvöld ákveða að senda hann til baka þurfa Íslendingar einnig að samþykkja það. Kristín veit ekki hvort það yrði gert.

Maðurinn hafði laumast um borð í skipið þar sem það lá við festar við Miðbakkann í Reykjavík. Samkvæmt frétt RÚV var hann ekki til vandræða eftir að hann fannst, ef frá er talin umtalsverð pappírsvinna sem vera hans hafði í för með sér.


Tengdar fréttir

Laumufarþegi fannst um borð í skipi frá Íslandi

Laumufarþegi fannst um borð í rannsóknarskipinu Knorr, sem var á leiðinni frá Íslandi Bandaríkjanna. Þetta staðfestir Kristín Völundardóttir, forstjóri útlendingastofnunar í samtali við Vísi. Maðurinn fannst í fyrrakvöld. Talið er að þarna sé um að ræða hælisleitanda sem hafi verið hér á landi. Fréttastofa ræddi við tvo flóttamenn á Fit Hostel á dögunum þar sem fram kom í máli þeirra að félagi þeirra væri á leið frá Íslandi um borð í skipi.

Auðvelt að laumast inn í flugvélina

Hælisleitendurnir sem fundust um borð í flugvél Icelandair fyrir um tveimur vikum segja að auðvelt hafi verið að komast fram hjá öryggisgæslunni og inn í vélina.

"Núna er vinur okkar á leið til Ameríku í skipi“

Hælisleitendur sem fundust um borð í flugvél fyrir tveimur vikum segja að vini sínum hafi tekist að koma sér úr landi og sé nú á leið til Bandaríkjanna. Þeir eru sjálfir staðráðnir í að reyna aftur að komast úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×