Innlent

Tjáningarfrelsið var fótum troðið - dómurinn reifaður

BBI skrifar
Dómsalur Mannréttindadómstólsins.
Dómsalur Mannréttindadómstólsins. Mynd/AFP
Það sem skipti höfuðmáli í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem féllu í dag, þar sem íslenska ríkið var talið hafa brotið gegn tjáningafrelsi tveggja blaðamanna, er það hlutverk sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi, þeir eru varðhundar lýðræðisins. Og þó pressan megi ekki ganga út fyrir ákveðin mörk og verði að bera virðingu fyrir orðspori fólks er það engu að síður skylda fjölmiðla að miðla upplýsingum og hugmyndum um málefni sem snerta almenning. Og almenningur hefur rétt til að njóta þeirra.

Íslenskir dómstólar höfðu áður dæmt blaðamennina Björk Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur, hvora í sínu lagi, til að þola ómerkingu ummæla sinna og greiða skaðabætur vegna umfjöllunar um nektardansstaði á Íslandi. Umfjöllun Erlu snerist um skemmtistaðinn Strawberries. Í þeirri umfjöllun höfðu ummæli verið höfð beint eftir viðmælanda blaðamannsins og birt í fréttinni. Íslenskir dómstólar töldu að þar sem Erlu hefði ekki tekist að sanna að þau ummæli væru sönn hefði hún gerst sek um ólögmætar aðdróttanir og dæmdi hana til greiðslu skaðabóta.

Mannréttindadómstóllinn tekur fram að umfjöllunarefnið í fréttinni, þ.e. nektardansstaðir, hafi átt mikilvægt erindi við almenning enda hefði umræða um strippstaði verið hávær í samfélaginu á þeim tíma.

Dómstóllinn bendir á að með því að reka nektardansstaðinn Strawberrie's hafi eigandinn gefið almenningi tilefni til að fjalla um sjálfan sig, þ.e. lagst sjálfviljugur á skotspón almennrar umræðu. Því verði hann að þola óvægnari umræðu en venjulegir menn í samfélaginu.

Mannréttindadómstóllin veltir hinum umdeildu ummælum sem birtust í greininni fyrir sér. Þau höfðu eitthvað með mafíustarfsemi að gera. Að mati dómstólsins hafa þau ákveðin einkenni gildisdóma og eru höfð eftir viðmælanda blaðamanns. Almenna reglan er sú að ekki eru jafnstrangar kröfur gerðar til þess að fólk sanni gildisdóma sína í almennri umræðu, og þar sem ekki var beinlínis um staðreyndir að ræða þótti undarlegt að láta blaðamann bera hallan af því að ummælin voru ekki sönnuð.

Dómstóllinn tekur fram að blaðamaðurinn hafi reynt eftir megni að birta allar hliðar málsins og því hafi verið um ábyrga blaðamennsku að ræða.

Að lokum leggur dómstóllinn mikla áherslu á að ein mikilvægasta leið blaðamanna til að sinna hlutverki sínu og upplýsa almenning er að birta viðtöl við fólk í samfélaginu. Með því að hefta miðlun blaðamanna á ummælum annarra og hana refsiverða er almenn umræða alvarlega sköðuð. Slíkt ætti ekki að gera nema sérlega sterk rök lægju til þess.

Með vísan til alls þessa og ófullkomins rökstuðnings íslenskra dómstóla kemst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það hefði verið nóg að blaðamaðurinn hefði birt fréttina í góðri trú og hann hefði ekki þurft að sannreyna þau ummæli sem hann birti.

Með dómi héraðsdóms var því tjáningarfrelsi blaðamannsins fótum troðið. Þessi umfjöllun er byggð á dómi Mannréttindadómstólsins í máli Erlu Hlynsdóttur. Hann má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Stórsigur fyrir blaðamenn

"Ég er í skýjunum yfir þessu," segir Björk Eiðsdóttir, ritstjóri Séð og heyrt og fyrrverandi blaðamaður á Vikunni. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hefði brotið gegn henni og Erlu Hlynsdóttur blaðamanni þegar þær voru gerðar ábyrgar fyrir ummælum viðmælenda sinna á tveimur dómsstigum á Íslandi. "Þetta er frábært. Fyrir hönd okkar allra í blaðamannastéttinni, þá er þetta bara stórsigur," segir hún.

"Stórkostlegur sigur fyrir tjáningarfrelsið“

Ég held að þetta hafi verið stórkostlegur sigur fyrir tjáningarfrelsið í landinu sem hefur verið í nauðvörn síðustu ár fyrir dómstólnum, segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður blaðmannanna Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.