Fótbolti

Hvarflaði aldrei að Spáni að slá Ítalíu út

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Xavi á blaðamannfundinum í gær
Xavi á blaðamannfundinum í gær MYND: NORDIC PHOTOS/GETTY
Spánn hefði getað slegið Ítalíu út úr Evrópumeistaramótinu í Úkraínu og Póllandi með því að gera 2-2 jafntefli við Króatíu í síðustu umferð C-riðils. Spánn vann leikinn 1-0 og vann þar með riðilinn og Ítalía náði öðru sætinu á kostnað Króatíu. Spánn og Ítalía mætast í úrslitaleik EM í kvöld klukkan 18:45.

Miðjumaðurinn Xavi Herandez var spurður út í það hvort liðið sæi eftir því að hafa ekki samið um 2-2 jafntefli við Króatíu og losað sig við Ítalíu úr keppninni á blaðamannafundi í gær.

„Fjöldi fólks hefur spurt okkur út í þetta en eins og þjálfarinn sagði þá sér maður aldrei eftir neinu ef maður spilar til sigurs. Þetta hvarflaði aldrei að okkur og við munum ekki leiða hugann að því þó við töpum," sagði Xavi.

„Ítalir leika ekki eins og þeir gerðu áður. Lykillinn að sigri í úrslitaleiknum verður að halda boltanum og það vilja bæði lið gera. Þeir eru með frábært lið," sagði Xavi ennfremur.

Xavi er 32 ára og hefur unnið allt sem í boði er með knattspyrnuliðum sínum; Spáni og Barcelona, en hann hefur áður látið hafa eftir sér að hann hafi óttast það að deyja út sem knattspyrnumaður á árum áður þegar fótboltinn stefndi í að verða leikur þar sem líkamlegir yfirburðir réðu úrslitum.

„Mér finnst ég heppinn. Fyrir nokkrum árum stefndi leikurinn í að verða mun harðari, leikur þar sem varnarleikur og leikskipulag réðu úrslitum. Við höfum verið heppnir með það að leikmenn sem ekki hafa verið eins sterkir líkamlega hafi slegið í gegn og nú reyna lið frekar að leika opinn fótbolta sem er bæði fallegri og glaðari. Það hefur verið gott fyrir mig og er gott fyrir Pirlo. Flestir okkar leikmanna og leikmenn ítalska liðsins leika þannig fótbolta," sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×