Fótbolti

Beckham mögulega varamaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stuart Pearce, þjálfari breska Ólympíuliðsins í knattspyrnu, segir það koma til greina að David Beckham verði kallaður inn í liðið ef aðrir leikmenn í liðinu forfallast.

Pearce valdi í gær sinn átján manna leikmannahóp fyrir leikana og eins og hann var áður búinn að gefa út var Beckham ekki einn þeirra þriggja eldri leikmanna sem hann mátti velja í lið sitt.

Á föstudaginn þarf Pearce svo að tilkynna nöfn þeirra fjögurra leikmanna sem hann getur kallað á ef leikmaður í hópnum forfallast. Pearce hefur ekki rætt við Beckham um hvort hann vilji vera á umræddum lista.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef David myndi ekki vilja vera á listanum enda fagmaður fram í fingurgóma í íþróttinni," sagði Pearce við enska fjölmiðla.

Pearce gaf þó til kynna að leikmennirnir á listanum yrðu allir úr hópi yngri leikmanna. „Ég get aðeins kallað á eldri leikmann ef annar eldri leikmaður meiðist. Það væri því skynsamlegra ef allir fjórir væru úr hópi yngri leikmanna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×