Sport

Williams komst í úrslit og setti met

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Serena Williams komst í dag í úrslit Wimbledon-mótsins í tennis með því að bera sigurorð af Victoriu Azarenku í spennandi viðureign, 6-3 og 7-6.

Williams mætir nú Pólverjanum Agniezsku Radwönsku í úrslitaviðureigninni sem fer fram á laugardaginn. Hún mun þar spila til úrslita um titilinn í sjöunda sinn á ferlinum en hún hefur hingað til unnið Wimbledon-mótið fjórum sinnum.

Williams vann fyrsta settið nokkuð örugglega í dag en annað settið var jafnt og spennandi. Á endanum þurfti upphækkun sem var æsispennandi en Serena vann að lokum, 8-6.

Williams vann leikinn með því að skora beint úr uppgjöf og náði svokölluðum ás. Alls náði hún 24 ásum í leiknum sem er met í sögu Wimbledon-mótsins. Ásarnir eru alls orðnir 85 hjá henni í ár og ljóst að þetta vopn hennar er að fleyta henni ansi langt.

En nú mun hún mæta Radwönsku sem hefur verið að spila vel að undanförnu. „Hún mun svara hverjum einasta bolta," sagði hún í viðtali við BBC eftir sigurinn í dag.

Radwanska hafði betur gegn Angelique Kerber frá Þýskalandi í sinni undanúrslitaviðureign fyrr í dag, 6-3 og 6-4. Þetta er í fyrsta sinn sem pólsk tenniskona kemst í úrslit á stórmóti í 75 ár.

Radwanska er í þriðja sæti heimslistans í tennis en Williams því sjötta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×