Fótbolti

Shevchenko leggur landsliðsskóna á hilluna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Shevchenko söng þjóðsönginn ásamt löndum sínum fyrir leikinn gegn Englandi í kvöld.
Shevchenko söng þjóðsönginn ásamt löndum sínum fyrir leikinn gegn Englandi í kvöld. Nordicphotos/Getty
Andriy Shevchenko hefur leikið sinn síðasta opinbera landsleik fyrir Úkraínu. Þetta staðfesti framherjinn að loknu 1-0 tapinu gegn Englandi í lokaumferð D-riðils Evrópumótsins í knattspyrnu í kvöld.

Shevchenko er án nokkurs vafa besti knattspyrnumaður Úkraínu síðan þjóðin öðlaðist sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Framherjinn ætlar að skipuleggja kveðjuleik með landsliðinu til að kveðja stuðningsmenn sína með virktum.

„Hver eru plön mín núna? Mig langar bara að komast heim, faðma börnin mín og kyssa konuna mína," sagði Shevchenko við blaðamenn eftir leikinn í kvöld.

Framherjinn, sem er 35 ára, er bæði yngsti og elsti markaskorarinn í sögu landsliðs þjóðar sinnar. Hann hefur einnig skorað flest mörk, 48 í 111 leikjum. Hann byrjaði leikinn í kvöld á bekknum vegna hnémeiðsla en kom inn á í síðari hálfleik.

Shevchenko byrjaði mótið með látum og skoraði bæði mörk Úkraínu í 2-1 sigri á Svíum. Í kjölfarið fylgdi 2-0 tap gegn Frökkum og tapið í kvöld sem varð til þess að liðið komst ekki upp úr riðlinum.

Shechenko var valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu árið 2004, eini Úkraínumaðurinn til að hljóta þá nafnbót, og var auk þess knattspyrnumaður Úkraínu sex sinnum.

Hann sló fyrst í gegn með Dynamo Kiev í heimalandinu áður en hann komst í guðatölu hjá AC Milan á Ítalíu. Eftir erfiðan tíma hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni sneri hann aftur til Dynamo liðsins í Kænugarði. Hann hefur lýst yfir áhuga á að ljúka ferlinum í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×