Fótbolti

Blatter: Marklínutækni er nauðsynleg

Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að atvikið í leik Englands og Úkraínu í gær, þegar skot Úkraínumanna fór klárlega yfir línuna en ekkert mark dæmt, sýni að marklínutækni sé orðin nauðsynleg í knattspyrnunni.

Þetta segir Blatter á Twitter-síðu sinni. Hann segir að marklínutækni sé ekki bara valmöguleiki heldur sé nauðsynlegt að innleiða hana.

Knattspyrnusamfélagið hefur verið tregt til þess að taka á móti tækninni opnum örmum en þó hafa verið prófanir hjá FIFA síðustu ár og stendur til að nýta marklínutækni á næstu árum.

Þessi umræða varð afar hávær á HM 2010 þegar skot Frank Lampard gegn Þýskalandi fór langt inn fyrir línuna en ekkert mark dæmt.

UEFA hefur verið að prófa sig áfram með sprotadómara við hlið markanna með engum árangri. Þeir bæta engu við leikinn og sprotadómarinn í gær var í góðri stöðu en gat ekki séð að boltinn fór inn fyrir línuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×