Fótbolti

Guðjón Heiðar klár í slaginn með Skagamönnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Heiðar fagnar með Skagamönnum í fyrra.
Guðjón Heiðar fagnar með Skagamönnum í fyrra. Mynd/Valli
Vinstri bakvörðurinn Guðjón Heiðar Sveinsson skrifaði í dag undir samning við Skagamenn sem gildir út árið 2013. Guðjón Heiðar sneri aftur á Skagann á föstudaginn eftir námsdvöl í Danmörku eftir áramót. Þetta kemur fram á heimasíðu Skagamanna.

"Ég er mjög sáttur að vera kominn heim og hlakka til að leika aftur með Skagamönnum í sumar. Ég kláraði eina önn í mínu námi úti og sé svo til með framhaldið. En nú erum við fjölskyldan komin heim og ég er spenntur að taka þátt í báruttunni með Skagamönnum í sumar," segir Guðjón Heiðar í viðtali á heimasíðu Skagamanna.

"Ég æfði vel í vetur og hef síðustu vikur æft eftir æfingaáætlun sem Þórður Þórðarson og Dean Martin skipulögðu fyrir mig. Ég æfði um tíma með liði úti en það var lítil alvara í því þannig að ég ákvað að halda mér sjálfur í æfingu. Vonandi get ég farið að láta til mín taka að nýju í liði Skagamanna," segir Guðjón Heiðar.

Skagamenn sækja Val heim á Hlíðarenda í kvöld. Bæði lið töpuðu síðustu leikjum sínum í deildinni og vilja væntanlega rétta sinn hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×