Fótbolti

Englendingar byrjaðir að æfa vítaspyrnur

Dramatíkin hefur elt enska landsliðið uppi á stórmótum í gegnum tíðina. Englendingar hafa til að mynda fallið fimm sinnum úr leik í vítaspyrnukeppni á síðustu 22 árum. Aðeins einu sinni hefur England náð að vinna í vítaspyrnukeppni á stórmóti en það var gegn Spáni á EM árið 1996.

Þarf því ekki að koma á óvart að enska landsliðið ætli sér að æfa vítaspyrnur vel fyrir átta liða úrslitin á EM.

"Við höfum notað tímann eftir æfingar til þess að taka vítaspyrnur og munum gera enn meira af því næstu daga. Maður vonast alltaf til þess að það muni hjálpa ef á þarf að halda," sagði Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands.

"Það má æfa víti endalaust en þegar á hólminn er komið þá snýst þetta sjálfstraust og andlegt ástand leikmanns er hann stígur á punktinn. Stundum klúðra þeir sem maður hefur mesta trú á meðan ótrúlegustu menn sem enginn á von á skora af öryggi.

Það eru aðeins tvær vítaskyttur í enska liðinu - Wayne Rooney og Steven Gerrard - en þeir hafa á stundum átt í erfiðleikum á vítapunktinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×