Fótbolti

Hodgson: Það hjálpaði okkur ekkert að hafa æft vítaspyrnur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Roy Hodgson
Roy Hodgson Mynd. / Getty Images.
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, var svekktur í leiklok eftir að England hafði dottið út í 8-liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu. England tapaði fyrir Ítalíu sem mæta Þjóðverjum í undanúrslitum á fimmtudagskvöld.

„Þegar þetta var komið út í vítaspyrnukeppni þá gat maður aðeins vonað að loksins væri komið að okkur," sagði Hodgson eftir leikinn.

„Við æfðum vítaspyrnur fyrir þennan leik en það hjálpaði okkur ekkert í kvöld. Ég get ekki kennt neinum leikmanni um þessa niðurstöðu, þeir reyndu allir eins og þeir gátu."

„Auðvita hélt ég að við myndum hafa þetta þegar Montolivo misnotaði sína spyrnu en svo var ekki. Ég var búinn að fylgjast með Ashley Young og Ashley Cole á æfingum og þeir tóku virkilega öruggar vítaspyrnur, en maður getur ekki ráðir við þreyttar lappir og stress."

„Ítalir einfaldlega voru með stáltaugar í vítaspyrnukeppninni og það sást greinilega þegar Pirlo vippaði boltanum í netið."

„Liðið er að falla úr keppni og við verðum að sætta okkur við það, en leikmenn liðsins geta gengið frá mótinu með höfuðið uppi og stoltir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×