Fótbolti

Tyrki og Frakki dæma undanúrslitaleikina á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cuneyt Cakir rekur hér John Terry útaf í Meistaradeildinni.
Cuneyt Cakir rekur hér John Terry útaf í Meistaradeildinni. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tyrkinn Cuneyt Cakir dæmir undanúrslitaleik Spánverjar og Portúgala á EM en það verður síðan Frakkinn Stephane Lannoy sem dæmir leik Þjóðverja og Ítala. UEFA tilkynnti þetta í dag.

Cuneyt Cakir er 35 ára gamall og hefur þegar dæmt tvo leiki á EM. Hann dæmdi leik Úkraínu og Svíþjóðar í 1. umferð D-riðils og svo leik Ítala og Íra í 3. umferð C-riðils. Cakir rak Írann Keith Andrews útaf í leiknum á móti Ítalíu.

Cakir dæmdi sex leiki í Meistaradeildinni í vetur og þar á meðal var seinni leikur Barcelona og Chelsea sem endaði með 2-2 jafntefli. Cakir rak þá John Terry, fyrirliða Chelsea, réttilega útaf á 37. mínútu.

Aðstoðardómarar Cakır verða Bahattin Duran og Tarik Ongun og marklínudómarar eru þeir Hüseyin Göcek og Bülent Yildirim. Slóveninn Damir Skomina verður fjórði dómari.

Stephane Lannoy er 42 ára gamall og hefur líka þegar dæmt tvo leiki á EM. Hann dæmdi leik Þýskalands og Portúgals í 1. umferð B-riðils og leik Grikkja og Tékka í 2. umferð A-riðikls. Lannoy dæmdi fjóra leiki í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

Aðstoðardómarar Lannoy verða Frédéric Cano og Michael Annonier og marklínudómarar eru þeir Fredy Fautrel og Ruddy Buquet. Englendingurinn Howard Webb verður fjórði dómari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×