Fótbolti

Börsungar vilja Alba en ekki Drogba

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Drogba í Indlandi á dögunum.
Drogba í Indlandi á dögunum. Nordicphotos/Getty
Sandro Rosell, forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, gefur lítið fyrir orðróm þess efnis að Dider Drogba sé á leið til félagsins. Hann staðfesti hins vegar að félagið væri á eftir Jordi Alba, vinstri bakverði Valencia.

Fjölmiðlar á Spáni greindu frá því í gærkvöldi að Drogba væri væntanlegur til Spánar í dag til viðræðna við Barcelona. Rosell segir engan fund fyrirhugaðan með Drogba.

„Ef hann er á svæðinu hlýtur hann að vera í fríi eða í persónulegum erindagjörðum. Það tengist Barcelona ekki á neinn hátt," sagði Rosell.

Fréttirnar af Drogba komu sem þruma úr heiðskíru lofti þar sem Fílabeinsstrendingurinn skrifaði nýverið undir samning við Shanghai Shenhua í Kína. Fulltrúar Drogba sendu frá sér skilaboð á Twitter í dag þar sem þeir sögðu sögurnar af Drogba tóma þvælu.

Nýr knattspyrnustjóri Barcelona, Tito Vilanova, sagði fyrr í mánuðinum að félagið þyrfti ekki að styrkja sig sóknarlega. Aðaláherslan væri að bæta sig varnarlega. Nafn Jordi Alba hefur verið nefnt í því samhengi en Alba hefur leikið vel með Spánverjum á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu.

„Ég er ekki ánægður að viðræðurnar séu orðnar opinberar en þannig er það nú. Að því sögðu er Jordi Alba jafnmikils virði og við erum tilbúnir að greiða," sagði Rosell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×