Fótbolti

Barcelona-miðjutvíeykið: Við stoppum Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi og Sergio Busquets loka hér á Frakkann Samir Nasri.
Xavi og Sergio Busquets loka hér á Frakkann Samir Nasri. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánverjarnir Xavi og Sergio Busquets verða í stóru hlutverki í kvöld þegar Spánn mætir Portúgal í undanúrslitum á EM í fótbolta. Eitt af mikilvægari verkefnum þeirra í kvöld en að sjá til þess að Cristiano Ronaldo leiki ekki lausum hala fyrir framan vörn spænska liðsins.

„Þetta er ekki Barcelona á móti Real Madrid heldur Spánn á móti Portúgal. Við vitum hversu stór leikmaður Cristiano er. Hann vill jafnan athafna sig á svæðinu sem Alvaro Arbeloa er á og Alvaro þekkir hann betur en nokkur annar," sagði Sergio Busquets á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ef við ætlum að stoppa Ronaldo þá þurfum við samt að gera það saman sem lið," sagði Busquets og Xavi er líka viss um að spænska liðinu takist að stoppa Cristiano Ronaldo sem hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum sínum á EM.

„Við þurfum að vera vel vakandi og passa upp á það að Cristiano fái ekki pláss til að snúa sér með boltann," sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×