Fótbolti

Ronaldo finnur ekki fyrir pressu fyrir leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins, verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Spánn og Portúgal mætast í undanúrslitum EM í fótbolta. Ronaldo hefur farið á kostum í síðustu tveimur leikjum á EM þar sem hann hefur skorað 3 mörk og skotið fjórum sinnum í marksúlurnar.

Fjölmiðlar á Spáni hafa sett þetta upp sem einvígi á milli Ronaldo og spænsku Heims- og Evrópumeistarana en margir spænsku landsliðsmannanna eru einmitt liðsfélagar hans hjá Real Madrid. Ronaldo hefur ekki áhyggjur af því að vera með portúgölsku þjóðina á bakinu í leiknum í kvöld.

„Svona leikir eru bara hluti af mínu lífi og ég er orðinn vanur svona leikjum. Ég finn vissulega til ábyrgðar en ég finn ekki fyrir neinni pressu," sagði Cristiano Ronaldo á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Cristiano Ronaldo fór illa með mörg færi í fyrstu tveimur leikjunum á EM en skoraði síðan bæði mörkin í 2-1 sigri á Hollandi og sigurmarkið í átta liða úrslitunum á móti Tékklandi.

„Ég vissi að mörkin kæmu. Ég byrjaði mótið ekki vel en liðsfélagarnir fórnuðu sér fyrir mig og allt fór að ganga betur," sagði Ronaldo.

Cristiano Ronaldo hefur skorað 35 mörk í 94 landsleikjum með Portúgal þar af 10 mörk í 16 leikjum á síðustu tveimur árum.

Ronaldo er alls kominn með 66 mörk í 65 leikjum með Real Madrid og portúgalska landsliðinu á þessu tímabili þar af voru 46 mörk í 38 leikjum í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×