Fótbolti

Allt í góðu milli leikmanna Barca og Real í spænska liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas og Andres Iniesta gefa eiginhandaráritanir eftir eina æfingu spænska landsliðsins.
Iker Casillas og Andres Iniesta gefa eiginhandaráritanir eftir eina æfingu spænska landsliðsins. Mynd/AP
Vicente Del Bosque, þjálfari spænska landsliðsins og leikmennirnir Iker Casillas og Andres Iniesta hafa engar áhyggjur af því að gamlar deilur milli leikmanna Barca og Real í spænska landsliðinu skemmi fyrir liðinu á EM. Spánverjar mæta Ítölum í sínum fyrsta leik í dag.

„Þetta væri kannski vandamál ef að Evrópukeppnin hefði farið fram á síðasta ári en það allt er í góðu á milli okkar eftir þetta tímabil," sagði Iker Casillas, fyrirliði Real Madrid og spænska landsliðsins.

„Það var ekki gott á milli leikmanna Barcelona og Real Madrid eftir síðasta tímabil en nú eru allir samstíga í því að hjálpa landsliðinu," bætti Casillas við en Real tók spænska meistaratitilinn af Börsungum í vor.

„Það er engin ástæða til að ræða þetta mál og það væri hreinlega heimskulegt að vera að rifja það eitthvað upp. Við erum allir með sama markmið og það er að spila eins gott mót og við getum. Það er frábært andrúmsloft í hópnum og allt er fullkomið," sagði Andres Iniesta, leikmaður Barcelona.

„Þetta mál tilheyrir sögunni og skipti ekki neinu máli í dag. Andrúmsloftið í hópnum er gott og það eru allir að vinna saman," sagði þjálfarinn Vicente Del Bosque aðspurðum um samband leikmanna Barcelona og Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×