Fótbolti

Spánverjar náðu bara jafntefli á móti Ítölum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Heims- og Evrópumeistarar Spánverja byrjuðu titilvörn sína á 1-1 jafntefli á móti Ítalíu í fyrsta leiknum í C-riðli á Evrópumótinu í fótbolta. Ítalir komust yfir í leiknum með marki varamannsins Antonio Di Natale en Cesc Fabregas jafnaði metin fjórum mínútum síðar.

Fernando Torres kom inn á sem varamaður og fékk tvö dauðafæri til þess að tryggja Spánverjum sigurinn en Chelsea-maðurinnm fór illa með góða stöðu í báðum tilfellum.

Leikskipulag Ítala gekk vel upp í fyrri hálfleiknum því þeir gáfu fá færi á sér og komust sjálfir næstir því að skora undir lok hálfleiksins þegar Iker Casillas varði skalla frá Thiago Motta.

Mario Balotelli fékk algjört dauðafæri í byrjun seinni hálfleiks eftir að hafa unnið boltann af varnarmönnum Spánverja en hann tók sér alltof langan tíma og Sergio Ramos náði að bjarga.

Balotelli var tekin útaf skömmu síðar og varamaður hans, Antonio Di Natale, var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn.

Antonio Di Natale kom Ítölum nefnilega í 1-0 á 60. mínútu eftir að hafa fengið flotta stungusendingu frá Andrea Pirlo. Di Natale sýndi mikla yfirvegun og lyfti boltanum framhjá Casillas.

Það tók Spánverja aðeins fjórar mínútur að jafna en Cesc Fabregas slapp þá í gegn eftir snilldarstungusendingu frá David Silva.

Fernando Torres kom inn á sem varamaður á 74. mínútu og var sloppinn einn í gegn aðeins nokkrum mínútum síðar en Gianluigi Buffon, markvörður Ítala, las hann og kom í veg fyrir að hann næði skoti á markið.

Torres var ekki hættur og á 85. mínútu fékk hann annað dauðafæri en lyfti þá boltanum yfir Buffon og ítalska markið.

Síðari hálfleikurinn var mikil skemmtun og liðin sköpuðu sér færi á víxl á lokakaflanum. Mörkin urðu hinsvegar ekki fleiri og liðin urðu að sættast á 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×