Fótbolti

Króatar skoruðu þrjú mörk hjá Írum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Mario Mandzukic, framherji þýska liðsins VfL Wolfsburg, skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Króata á Írlandi í kvöld í fyrsta leik liðanna í C-riðli Evrópumótsins í fótbolta. Mandzukic byrjaði báða hálfleiki á því að skora skallamark en Króatar komust í 2-1 rétt fyrir hálfleik á rangstöðumarki. Króatarnir byrja því Evrópumótið vel en róðurinn verður þungur fyrir írska liðið í næstu tveimur leikjum sínum á móti Ítalíu og Spáni.

Mario Mandzukic kom Króatíu í 1-0 á 3. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið þrátt fyrir að hafa nánast misst jafnvægið eftir að fyrirgjöf Ivan Strinic hafði viðkomu í varnarmanni.

Írunum tókst þó að jafna þegar Sean St Ledger mætti á fjærstöng og skallaði inn aukaspyrnu Aiden McGeady á 19. mínútu.

Everton-maðurinn Nikica Jelavic kom Króatíu aftur yfir á 43. mínútu þegar boltinn féll fyrir hann í teignum eftir að Írum mistókst að koma boltanum frá. Írar heimtuðu rangstöðu en flaggið fór ekki upp og Jelavic var fljótastur að átta sig.

Mario Mandzukic byrjaði síðan seinni hálfleikinn eins og þann fyrri með því skalla boltann í mark Íra eftir fyrirgjöf Ivan Perisic. Skalli hans fór reyndar af stönginni og þaðan af Shay Given og í markið.

Króatar voru sterkara liðið og sigurinn því fyllilega sanngjarn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×