Fótbolti

Tapið á móti Dönum þarf ekki að boða slæmt fyrir Hollendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Van Basten með Evrópubikarinn eftir sigur Hollendinga í úrslitaleiknum 1988.
Marco Van Basten með Evrópubikarinn eftir sigur Hollendinga í úrslitaleiknum 1988. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollenska landsliðið byrjaði ekki vel á EM í fótbolta í gær þegar liðið tapaði 0-1 á móti Danmörku í fyrsta leik sínum í keppninni. Hollendingar geta þó hughreyst sig með því að fletta sögubókunum því síðast þegar þeir töpuðu fyrsta leik á EM þá fóru þeir alla leið og urðu Evrópumeistarar í fyrsta og eina skiptið.

Hollendingar voru þarna aðeins að tapa fyrsta leik á EM í annað skiptið frá 1980 en þá var fyrst tekin upp riðlakeppni í úrslitum Evrópumótsins. Hollenska liðið vann sannfærandi 3-0 sigur á Ítalíu í fyrsta leik sínum fyrir fjórum árum en tapaði þá á móti Rússlandi í 8 liða úrslitunum.

Hollendingar töpuðu 0-1 fyrir Sovétmönnum í fyrsta leik sínum á EM 1988 en tryggðu sér sæti í undanúrslitunum með því að vinna 3-1 sigur á Englandi og 1-0 sigur á Írlandi. Hollendingar fóru síðan alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir unnu Sovétmenn 2-0 og tryggðu sér titilinn.

Það lítur út fyrir að hollenska liðið þurfi að vinna síðustu tvo síðustu leiki sína í riðlinum sem eru á móti sterkum liðum Þýskalands og Portúgals.

Fyrsti leikur Hollendinga á EM 1980-2012

EM 2012 0-1 tap fyrir Danmörku [?]

EM 2008 3-0 sigur á Ítalíu [8 liða úrslit]

EM 2004 1-1 jafntefli við Þýskaland [Undanúrslit]

EM 2000 1-0 sigur á Tékklandi [Undanúrslit]

EM 1996 0-0 jafntefli við Skotland [8 liða úrslit]

EM 1992 1-0 sigur á Skotlandi [Undanúrslit]

EM 1988 0-1 tap fyrir Sovétríkjunum [Evrópumeistarar]

EM 1984 - Komust ekki í úrslitakeppnina

EM 1980 1-0 sigur á Grikklandi [Riðlakeppnin]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×