Fótbolti

21 leikur í röð án taps hjá Frökkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Laurent Blanc, landsliðsþjálfari Frakklands, segir að sínir menn hafi engan áhuga á að spila eins og það enska í leik liðanna á EM í dag.

Blanc hefur náð að byggja upp öflugt franskt landslið síðan hann tók við eftir skelfilegt gengi þess á HM í Suður-Afríku fyrir tveimur árum síðan. Frakkar töpuðu síðast leik á haustmánuðum 2010 og hafa síðan þá leikið 21 leik í röð án taps.

„Við höfum byggt upp mikið sjálfstraust í okkar röðum," sagði Blanc. „En Frakkland getur ekki leyft sér að vera með sömu væntingar til mótsins og Spánn og Þýskaland. Það er ekki sjálfgefið að við eigum að vinna þennan riðil," bætti hann við en leikur Frakklands og Englands hefst klukkan 16.00 í dag.

Blanc á von á því að þeir ensku munu leggja áherslu á varnarleik í dag. „Ef við nálgumst leikinn eins og England má búast við 0-0 jafntefli. Kannski fáum við mark úr föstu leikatriði. Við ætlum þó að spila okkar fótbolta."

Roy Hodgson er þjálfari enska landsliðsins en hefur fengið aðeins 40 daga til að undirbúa sig og liðið fyrir EM. Blanc tók við eftir HM 2010.

„Landsliðsþjálfarar fá aldrei mikinn tíma til að vinna með sínum leikmönnum en Hodgson hefur fengið mun minni tíma en ég. Hann hefur reynt að koma sínum hugmyndum til skila og ef eitthvað er að marka síðustu tvo vináttulandsleiki má eiga von á því að þeir liggi til baka og treysti svo á skyndisóknir."

„Við þurfum að passa vel upp á það og sjá til þess að okkur verði ekki refsað fyrir kæruleysi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×