Fótbolti

Dauft jafntefli hjá Englendingum og Frökkum

Gerrard og Nasri í baráttunni í dag.
Gerrard og Nasri í baráttunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Englendingar og Frakkar gerðu jafntefli, 1-1, í fyrri leik dagsins á EM. Þetta var fyrsti leikur liðanna í D-riðli og Englendingar nokkuð sáttir við stigið enda ekki við miklu búist af þeim á mótinu. Frakkar eru nú búnir að spila 22 leiki í röð án þess að tapa.

Fyrri hálfleikur var ágætis skemmtun. Frakkarnir meira með boltann en Englendingarnir fengu betri færi. Vörðust þess utan mjög vel.

Það var Joleon Lescott sem kom Englandi yfir eftir hálftíma leik. Hann skallaði þá aukaspyrnu Steven Gerrard í netið.

Frakkar hertu róðurinn eftir markið og enska liðið féll aftar en liðið hafði verið fram að því. Sex mínútum fyrir hlé bar pressa Frakkana svo árangur.

Samir Nasri náði þá góðu skoti utan teigs sem fór á nærstöngina og í netið. Joe Hart markvörður sá boltann seint en hefði samt líklega getað gert betur. 1-1 í hálfleik.

Það hægðist nokkuð á leiknum í síðari hálfleik. Hitinn mikill og leikmenn virkuðu nokkuð þreyttir. Frakkar sem fyrr meira með boltann en engin færi hjá hvorugu liðinu.

Hálfleikurinn leið rólega án þess að nokkuð markvert gerðist. Englendingar augljóslega sáttarið við jafnteflið og gerðu allt hvað þeir gátu til þess að hægja á leiknum undir lokin.

Frakkar náðu aldrei að opna ensku vörnina almennilega og sama upp á teningnum hinum megin. Jafntefli því sanngjörn niðurstaða þegar upp var staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×