Fótbolti

Kóngurinn í Kænugarði afgreiddi Svía

Shevchenko fagnar marki í kvöld.
Shevchenko fagnar marki í kvöld.
Gamla brýnið Andriy Shevchenko sýndi gamla takta í kvöld er hann skoraði tvö mörk fyrir Úkraínumenn og tryggði þeim sigur á Svíum, 2-1. Frábær byrjun hjá heimamönnum í Kænugarði.

Úkraínumenn komu nokkuð á óvart með sprækum leik í fyrri hálfleik. Sóknarlotur þeirra beittar og Úkraínumenn mun líklegri til þess að skora.

Svíar fengu þó besta færi hálfleiksins er Zlatan Ibrahimovic skallaði boltann í stöng. Allt kom fyrir ekki og markalaust í hálfleik.

Svíar voru slakir í fyrri hálfleik en rifu sig upp í þeim síðari. Þeir hófu að sækja nokkuð grimmt og Zlatan kom þeim yfir á 52. mínútu. Hann potaði þá boltanum inn eftir fína sendingu Kim Källström.

Úkraínumenn létu ekki markið slá sig út af laginu því rúmum tveim mínútum síðar jafnaði gamla markamaskínan, Andriy Shevchenko, metin fyrir heimamenn. Voronin með sendinguna á Shevchenko sem stangaði knöttinn í netið.

Shevchenko var ekki hættur því skömmu síðar kom hann Úkraínumönnum yfir. Aftur skoraði hann með skalla. Hann hljóp fram fyrir nærstöng í hornspyrnu og stangaði boltann fast á nærstöngina. Snilldarlega gert hjá kónginum í Kænugarði.

Svíar fengu sín færi undir lokin en ekki kom jöfnunarmarkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×