Fótbolti

Evra: England spilaði eins og Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrice Evra segir að enska landsliðið ætli að nota sömu uppskrift til að vinna EM og Chelsea notaði til að vinna Meistaradeild Evrópu.

Evra lék með Frökkum sem gerðu 1-1 jafntefli við England í gær. Frakkar voru meira með boltann og sáu til þess að Englendingar náðu aðeins einu skoti á markið - en það kom þegar að Joleon Lescott kom þeim ensku yfir í leiknum.

Chelsea kom mörgum á óvart með því að vinna Meistaradeildina en á leið sinni í úrslitaleikinn lagði liðið til að mynda Barcelona í úrslitaleiknum. Chelsea treysti á þéttan varnarleik í keppninni og svo á mörk eftir skyndisóknir og úr föstum leikatriðum.

„Við erum ekki ánægðir með úrslit leiksins vegna þess að við spiluðum mun betur, að mínu mati," sagði Evra eftir leikinn í gær.

„Stundum fannst manni eins og við værum að spila gegn fimmtán leikmönnum. Það var mjög erfitt fyrir okkur að finna svæði til að athafna okkur á. Fólki finnst þetta kannski fyndið en þeir eru að spila eins og Chelsea gerði gegn Barcelona."

„Kannski að stuðningsmönnum Englands finnist að liðið eigi að spila meiri fótbolta en þeir verða samt ánægðir ef Englendingum tekst að vinna mótið svona."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×