Fótbolti

UEFA rannsakar kynþáttafordóma á EM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mario Balotelli hafði á orði fyrir mót að hann myndi ganga af velli ef hann yrði fyrir kynþáttafordómum.
Mario Balotelli hafði á orði fyrir mót að hann myndi ganga af velli ef hann yrði fyrir kynþáttafordómum. Nordicphotos/Getty
Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur hafið rannsókn á kynþáttafordómum úr röðum áhorfenda á leikjum Spánverja og Ítala annars vegar og Rússa og Tékka hins vegar á Evrópumóti karla í knattspyrnu. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.

Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá því að Mario Balotelli hafi þurft að sitja undir kynþáttaníðssöngvum í viðureign Ítala og Spánverja í Gdansk á sunnudaginn. Þá sagði Theodor Gebre Selassie, varnarmaður Tékka, að hann hefði orðið var við kynþáttafordóma í sinn garð í leiknum gegn Rússum á föstudaginn.

Þrátt fyrir þessar fréttir hafa ítölsku og tékknesku knattspyrnusamböndin ekki sent inn kvartanir til UEFA.

UEFA er á varðbergi vegna kynþáttafordóma enda hefur umræðan verið mikil í kjölfar BBC heimildarmyndar sem sýnd var skömmu fyrir mót. Þar var afar svört mynd máluð af stuðningsmönnum í Póllandi og Úkraínu þar sem fréttamaður varð vitni að kynþáttaníðssöngvum á knattspyrnuvöllum landanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×