Fótbolti

Gomez sá um Hollendinga

Gomez fagnar marki í kvöld.
Gomez fagnar marki í kvöld.
Þjóðverjar eru svo gott sem komnir áfram í átta liða úrslit á EM. Þýskaland lagði Holland í kvöld, 2-1, og þeir skildu Hollendinga eftir stigalausa á botni riðilsins. Von þeirra um að komast áfram er lítil. Tvö mörk frá Mario Gomez dugðu Þjóðverjum til sigurs.

Leikurinn fór frekar rólega af stað. Van Persie fékk fyrsta færi leiksins en kom ekki nógu góðu skoti á markið.

Það var síðan markahrókurinn Mario Gomez sem kom Þjóðverjum yfir. Fékk fína sendingu frá Schweinsteiger í teiginn og kláraði færið vel.

Hann var svo aftur á ferðinni skömmu síðar. Í þröngu færi hægra megin í teignum en lyfti boltanum smekklega í fjærhornið. Stórkostlegt mark.

Hollendingar skiptu þeim Rafael van der Vaart og Klaas-Jan Huntelaar inn af bekknum í hálfleik í von um að hressa upp á leik síns liðs og veitti ekki af.

Leikur Hollendinga skánaði til mikilla muna og Robin van Persie gaf þeim von með góðu marki sautján mínútum fyrir leikslok.

Hollendingar höfðu ekki kraftinn til þess að bæta öðru við og Þjóðverjar unnu sanngjarnan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×