Fótbolti

Van Marwijk: Þetta er ekki búið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bert van Marwijk, þjálfari hollenska landsliðsins, neitar að gefast upp þrátt fyrir að hans menn séu enn stigalausir í B-riðli EM í Póllandi og Úkraínu.

Holland hefur tapað fyrir Danmörku og Þýskalandi í fyrstu tveimur leikjunum. Liðið á þó enn möguleika á að komast áfram ef liðið vinnur Portúgal í lokaumferðinni og Þýskaland vinnur á sama tíma sigur á Dönum.

„Við getum ekki leyft okkur að hugsa um að þetta sé búið á þessu stigi málsins," sagði van Marwijk eftir tapið gegn Þýskalandi í gær. Hann segir að frammistaða leikmanna í gær hafi valdið honum vonbrigðum.

„Varnarleikurinn var ekki í lagi, né heldur samstarf varnarsinnaðra miðjumanna og varnarmanna. Við spiluðum vel fyrstu 20 mínúturnar og fengum nokkur tækifæri. En þegar maður er að spila gegn Þýskalandi verður maður að nýta öll færi sem maður fær."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×