Fótbolti

Björn Bergmann ósáttur | fær ekki að yfirgefa Lilleström

Björn Bergmann Sigurðarson virðist ekki vera að fara frá norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström. Skagamaðurinn skrifar á Twitter síðu sína í dag að hann hafi fundað með stjórn félagsins og niðurstaðan verði sú að félagið vill ekki selja hann að svo stöddu. „Ég var að ljúka við fund með stjórninni, þeir ætla að neyða mig til að vera áfram, ég er andlega niðurbrotinn, ég vil fara," skrifar Björn Bergmann á Twitter.

Björn Bergmann hefur verið einn besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar það sem af er keppnistímabilinu og mörg lið hafa sýnt hinum 21 árs gamla framherja áhuga. Á undanförnum vikum hefur hann verið sterklega orðaður við enska 1. deildarliðið Wolves sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

Samkvæmt heimildum Vísis mun Björn Bergmann ganga til liðs við Wolves þann 1. ágúst. Hann mun því leika allt að fimm leiki til viðbótar með Lilleström í júní og júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×