Fótbolti

Hollendingar í vondum málum fyrir lokaumferðina í "dauðariðlinum"

Stuðningsmenn Hollands hafa skemmt sér vel á EM þrátt fyrir slakt gengi liðsins.
Stuðningsmenn Hollands hafa skemmt sér vel á EM þrátt fyrir slakt gengi liðsins. AP
Það er mikil spenna fyrir lokaumferðina í B-riðli Evrópumóts karlalandsliða í fótbolta sem fram fer í kvöld. Danir og Þjóðverjar mætast, og á sama tíma og leikur Hollands og Portúgals. Staðan í riðlinum er þannig að Þýskaland er efst með 6 stig, Portúgal og Danmörk eru með 3 stig og Holland er án stiga eftir tvo tapleiki. Leikirnir hefjast báðir samtímis kl. 19.45 og er þeim lýst í textalýsingu á Vísi.

Mesta pressan er á Hollendingum sem verða að landa sigri gegn Portúgal til þess að eiga möguleika á að komast áfram. Það þarf allt að ganga Hollendingum í hag í kvöld ef liðið á að eiga möguleika. Danir verða að tapa gegn Þjóðverjum á sama tíma og Holland þarf að vinna Portúgal með tveggja marka mun í það minnsta.

Ef Danir ná jafntefli gegn Þjóðverjum dugir það Dönum til að komast áfram – að því gefnu að Hollendingar sigri Portúgal.

Portúgal þarf aðeins stig gegn Hollendingum til þess að komast áfram, ef Þjóðverjar leggja Dani að velli.

Holland hefur aldrei farið í gegnum riðlakeppni á Evrópumeistaramóti án stiga en þetta er í níunda sinn sem Holland er í úrslitakeppni EM. Liðið varð Evrópumeistari árið 1988. Það er gríðarleg pressa á Bert van Marwijk landsliðsþjálfara Hollands sem er harðlega gagnrýndur af sparkspekingum fyrir leikskipulag og liðsval.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×