Fótbolti

Ronaldo skaut Portúgal í átta liða úrslitin

Cristiano Ronaldo skaut Portúgal í átta liða úrslit Evrópumóts landsliða í kvöld.
Cristiano Ronaldo skaut Portúgal í átta liða úrslit Evrópumóts landsliða í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo skaut Portúgal í átta liða úrslit Evrópumóts landsliða í kvöld í 2-1 sigri liðsins gegn Hollendingum í B-riðlinum. Holland náði ekki að landa stigi í þessum riðli og er þetta í fyrsta sinn sem Hollendingar eru í slíkri stöðu eftir Evrópumót í fótbolta. Portúgal mun mæta liði Tékklands í átta liða úrslitum. Þjóðverjar mæta liði Grikklands.

Staðan í riðlinum fyrir lokaumferðina var þannig að öll fjögur liðin gátu fallið úr keppni og öll gátu komist áfram.

Rafael van der Vaart kom Hollendingum yfir strax á 11. mínútu en aðeins tveggja marka sigur hefði dugað fyrir Hollendinga til þess að komast upp úr hinum svokallaða „dauðariðli." Bert van Marwijk þjálfari Hollands lagði því alla áherslu á sóknarleikinn – en það dugði ekki til þar sem að varnarleikur Hollands var helsta vandamálið liðsins í þessari keppni.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin á 28. mínútu eftir frábæra sendingu frá João Pereira. Ronaldo var síðan aftur á ferðinni á 74. mín. þar sem hann fékk sendingu frá fyrrum liðsfélaga sínum úr Manchester United, Nani. Ronaldo fékk boltann vinstra meginn í vítateignum, lék á einn varnarmann og skoraði af öryggi í nærhornið.

Ronaldo var gríðarlega öflugur í þessum leik en hann átti m.a. tvö skot sem fóru í markstöngina.

Portúgal vann því tvo leiki af þremur í riðlinum, 3-2 sigur gegn Dönum og 2-1 sigur gegn Hollendingum.

Holland tapaði öllum þremur leikjum sínum og liðið skoraði aðeins tvö mörk en fékk fimm mörk á sig.

Boltavakt Vísis var með beina lýsingu frá viðureign Portúgals og Hollands B-riðli á EM 2012.

Hér fyrir neðan eru allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×