Fótbolti

Cassano og Balotelli tryggðu Ítölum sæti í átta liða úrslitunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Antonio Cassano og Mario Balotelli tryggðu Ítölum 2-0 sigur á Írum og um leið sæti í átta liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta. Cassano skoraði fyrra markið í fyrri hálfleik en Balotelli það síðara í lokin eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Ítalir voru sterkara liðið frá byrjun. Írar björguðu tvisvar á marklínu áður en Ítalir skoruðu og í bæði skiptin komst Sean St Ledger fyrir skot frá Antonio Di Natale. St Ledger gat þó lítið gert í því þegar Antonio Cassano skallaði inn hornspyrnu Andrea Pirlo.

Ítalir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og áttu nokkrar ágætar tilraunir án þess að ná að bæta við marki. Þegar leið á hálfleikinn komust Írar aðeins meira inn í leikinn en þeir ógnuðu aldrei ítalska liðinu af einhverri alvöru.

Mario Balotelli skoraði markið á 90. mínútu með glæsilegu viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf frá Alessandro Diamanti. Balotelli var tekinn út úr liðinu fyrir leikinn en kom inn á fyrir Antonio Di Natale á 74. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×