Fótbolti

Hodgson: Það verður erfitt að velja á milli Carroll og Welbeck

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins, ætlar að setja Wayne Rooney inn í byrjunarliðið fyrir leikinn á móti Úkraínu á morgun en viðurkennir að það verði erfitt að ákveða það hvort Andy Carroll eða Danny Welbeck fari á bekkinn.

Andy Carroll og Danny Welbeck skoruðu báðir í 3-2 sigrinum á Svíum, Carroll kom Englandi í 1-0 með glæsilegum skalla og Welbeck skoraði síðan sigurmarkið með skemmtilegri hælspyrnu.

„Ég engar áhyggjur af því að [Wayne] Rooney sé eitthvað ryðgaður. Hann hefur verið á fullu á öllum æfingum og ég tel að hann sé alveg jafn beittur og í sínum síðasta leik með Manchester United," sagði Roy Hodgson.

„Það verður mjög erfitt að velja á milli Andy Carroll og Danny Welbeck því þeir hafa báðir staðið sig svo vel, bæði í undirbúningsleikjunum sem og í mótinu sjálfu. Þeir hafa gefið mér klassískan "stjórahausverk". Það er nú hausverkur sem við viljum allir fá því það þýðir að leikmennirnir séu að spila vel. Það er hinsvegar öruggt að Wayne Rooney mun byrja leikinn," sagði Hodgson.

Danny Welbeck hefur verið í byrjunarliðinu í báðum leikjum Englendinga á EM en Andy Carroll kom inn fyrir sigurleikinn á móti Svíum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×