Fótbolti

Svíar kvöddu EM með flottum sigri á Frökkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Svíar unnu Frakka 2-0 í lokaleik sínum á EM í fótbolta en þessi flotti sigur breytti því þó ekki að Svíar eru á leiðinni heim eftir riðlakeppnina. Þetta var fyrsta tap Frakka í 23 leikjum og það þýðir að Frakkarnir þurfa að mæta Heims- og Evrópumeisturum Spánverja í átta liða úrslitunum.

Zlatan Ibrahimovic kom Svíum yfir með snilldarskoti á 54. mínútu eftir sendingu Sebastian Larsson og Larsson innsiglaði síðan sigurinn undir lokin. Svíar unnu stemningssigur í kvöld en Frakkarnir voru í vandræðum með baráttuglatt sænskt lið.

Ola Toivonen fékk algjört dauðafæri á 10. mínútu eftir að Anders Svensson átti stungusendingu inn á hann. Toivonen sólaði Hugo Lloris en skaut síðan í stöngina úr þröngu færi.

Frakkarnir voru kannski aðeins betri í jöfnum fyrri hálfleik og bestu færi þeirra fengu þeir Franck Ribery og Karim Benzema. Svíarnir spiluðu engu að síður vel og gáfu ekki mörg færi á sér.

Zlatan Ibrahimovic kom Svíum í 1-0 á 54. mínútu með stórkostlegu viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf Sebastian Larsson frá hægri.

Olof Mellberg, fyrirliði Svía, var frábær í vörn Svíanna og komst fyrir hvert skot Frakkana á fætur öðru. Frakkarnir sóttu og sóttu en það voru Svíar sem skoruðu.

Sebastian Larsson innsiglaði sigurinn í uppbótartíma þegar hann fylgdi eftir sláarskoti Samuel Holmén. Christian Wilhelmsson lagði upp færið fyrir Holmen en hann kom inn á í hálfleik og breytti miklu fyrir sænska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×