Fótbolti

Tólf ár síðan að Englendingar sátu eftir í riðlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska landsliðið verður í sviðsljósinu í kvöld þegar liðið mætir Úkraínu í síðustu umferðinni í D-riðli Evrópumótsins í fótbolta. Enska liðinu nægir jafntefli til þess að komast áfram í átta liða úrslitin en það eru liðin tólf ár síðan að enska landsliðinu tókst ekki að komast upp úr sínum riðli á stórmóti.

Á EM fyrir tólf árum töpuðu Englendingar 2-3 fyrir Rúmeníu í úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitunum. Alan Shearer og Michael Owen komu enska liðinu í 2-1 fyrir hlé en Dorinel Munteanu jafnaði á 48. mínútu og Ionel Ganea skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 89. mínútu. Enska liðið hefði nægt jafntefli en tapið þýddi að Rúmenar komust áfram upp úr riðlinum.

Á EM 2004 unnu Englendingar 4-2 sigur á Króatíu í lokaumferðinni þrátt fyrir að lenda undir eftir fimm mínútur en Króatar hefðu komist áfram með sigri. Wayne Rooney skoraði tvö mörk í leiknum en hin mörkin skoruðu Paul Scholes og Frank Lampard. Enska landsliðið komst ekki í úrslitakeppni EM fyrir fjórum árum.

Á HM í Suður-Afríku fyrir tveimur áfram tryggði Jermain Defoe enska liðinu 1-0 sigur á Slóveníu í lokaumferðinni og þar með sæti í sextán liða úrslitunum en slóvenska liðinu nægði jafntefli í þeim leik.

Englendingar voru búnir að tryggja sig inn í sextán liða úrslitin á HM 2006 áður en kom að þriðja og síðasta leik riðilsins og á HM fjórum árum fyrr (2002) dugði liðinu að gera markalaust jafntefli við Nígeríu í lokaleiknum sínum.

Englendingar í riðlakeppninni á síðustu stórmótum:

HM 2010 - 2. sæti á eftir Bandaríkjunum (Slóvenía, Alsír)

EM 2008 - Ekki með

HM 2006 - 1. sæti á undan Svíþjóð (Paragvæ, Trínidad)

EM 2004 - 2. sæti á eftir Frakklandi (Króatía, Sviss)

HM 2002 - 2. sæti á eftir Svíþjóð (Argentína, Nígería)

EM 2000 - 3. sæti á eftir Portúgal og Rúmeníu (England, Þýskaland)

Hm 1998 - 2. sæti á eftir Rúmeníu (Kólumbía, Túnis)

EM 1996 - 1. sæti á undan Hollandi (Skotland, Sviss)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×