Fótbolti

Gerrard: Ef Rooney heldur áfram að pota boltanum inn þá náum við langt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard fagnar í kvöld.
Steven Gerrard fagnar í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Englendinga, lagði upp sigurmark liðsins í kvöld en 1-0 sigur enska liðsins á Úkraínu tryggði liðinu sigur í riðlinum og leik á móti Ítalíu í átta liða úrslitunum.

„Við erum að komast í gang á réttum tíma. Þetta var ekki frábær frammistaða en við stóðum saman og náðum úrslitunum sem við þurftum," sagði Steven Gerrard.

„Við höfum verið gagnrýndir í gegnum tíðina fyrir að mæta ekki á stórmót en það mikilvægasta er að bregðast rétt við gagnrýninni og það tókst í kvöld," sagði Gerrard.

„Ef Wayne Rooney heldur áfram að pota boltanum inn eins og í kvöld þá getum við farið langt á þessu móti. Ég hef sagt það oft að hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur í þessu móti," sagði Gerrard og hann var líka spurður út í markið sem Úkraína skoraði en var ekki dæmt gilt.

„Maður þarf alltaf að hafa heppnina með sér og lið ná aldrei langt án hennar," sagði Gerrard og framundan er leikur á móti Ítölum í átta liða úrslitunum.

„Ítalir eru góðir varnarlega og þeir hafa menn innanborðs sem geta klárað leikina," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×