Fótbolti

Kuyt til Fenerbahce

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Tyrkneska félagið Fenerbahce hefur samið við hollenska knattspyrnumanninn Dirk Kuyt sem var á mála hjá Liverpool. Kuyt gerir þriggja ára samning við Fenerbahce en frá þessu er greint á heimasíðu tyrkneska félagsins.

Kuyt gekk til liðs við Liverpool sumarið 2006 frá Feyenoord, rétt eftir að Liverpool varð enskur bikarmeistari. Liverpool vann engan titil fimm fyrstu ár Kuyt hjá enska félaginu en hans eini titill með liðinu vannst í vetur þegar liðið hampaði enska deildarbikarnum.

Kuyt lék 176 leiki með Liverpool og skoraði í þeim 51 mark en hann var fastamaður í liðinu undir stjórn Rafael Benitez en mátti sætta sig við minna hlutverk undir stjórn Kenny Dalglish í vetur og lét óánægju sína með það nokkrum sinnum í ljós.

Kuyt skoraði fjölmörg mikilvæg mörk fyrir Liverpool. Hann skoraði í úrslitaleik Meistaradeidlarinnar 2007 þar sem AC Milan sigraði 2-1 auk þess sem hann tryggði liðinu sæti í úrslitaleiknum með marki úr vítaspyrnu gegn Chelsea í undanúrslitunum.

Hann stóð undir nafni þegar hann skoraði sigurmarkið undir lok bikarleiks Liverpool og Manchester United í vetur auk þess sem hann skoraði úr vítaspyrnu í framlengingu úrslitaleiks deildarbikarsins gegn Cardiff í vetur, í leik sem Liverpool vann eftir vítaspyrnukeppni.

Kuyt er fyrsti leikmaðurinn til að yfirgefa lið Liverpool eftir að Brendan Rodgers var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×