Fótbolti

Gerrard sáttur eftir sigurinn á Belgum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gerrard einbeittur á svip í leiknum gegn Belgíu.
Gerrard einbeittur á svip í leiknum gegn Belgíu. MYND/NORDIC PHOTOS GETTY
Steven Gerrard fyrirliði enska landsliðsins í fótbolta var ánægður með frammistöðu Englands í 1-0 sigrinum á Belgíu í gær. Hann sagði erfiðan leik vera einmitt það sem England hefði þurft á að halda rétt fyrir Evrópumeistaramótið í Póllandi og Úkraínu.

"Þetta var prófraunin sem við þurftum," sagði Gerrard um leikinn gegn Belgíu. "Við höfum viku til að jafna okkur og gera klára fyrir leikinn gegn Frakklandi," en England og Frakkland hefja leik á EM mánudaginn 11. júní.

"Ég á von á svipuðum leik gegn Frakklandi. Við þurfum að leika líkan leik, helst aðeins betur. Við þurfum að vera skipulagðir og hreyfa okkur vel án boltans. Við vorum þéttir. Þeir fengu mjög fá færi í leiknum," sagði Gerrard.

"Við skulum ekki vanmeta Belgíu. Þó liðið sé ekki á leið á EM þá býst ég við þeim á Heimsmeistaramótinu eftir tvö ár og það með gott lið."

Gerrard meiddist lítilega í leiknum en hann hefur engar áhyggjur af því. "Ég þreyttist er leið á leikinn, þetta er í fyrsta sinn síðan í bikarúrslitaleiknum sem ég spila svona mikinn fótbolta. Ég þurfti á þessum mínútum að halda.

"Ég verð klár í slaginn gegn Frakklandi. Andinn í hópnum er góður en við vitum að við þurfum að leika betur á EM. Við þurfum að hlusta á þjálfarann, meðtaka það sem hann hefur að segja og þá held ég að við stöndum okkur og bætum okkur með hverjum leiknum," sagði Gerrard að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×