Fótbolti

Prandelli íhugar að nota De Rossi í þriggja manna varnarlínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Prandelli stýrði fyrstu æfingu ítalska liðsins í Póllandi í gær.
Prandelli stýrði fyrstu æfingu ítalska liðsins í Póllandi í gær. Nordicphotos/Getty
Cesare Prandelli, landsliðsþjálfari karlalandsliðs Ítalíu í knattspyrnu, veltir alvarlega fyrir sér að stilla Daniele De Rossi upp í þriggja manna varnarlínu liðsins. Prandelli er mikill vandi á höndum en vandræðagangur landsliðsins undanfarnar vikur hefur verið með ólíkindum.

Ítalir steinlágu 3-0 gegn Rússum í eina æfingaleik sínum fyrir Evrópumótið og litu skelfilega út í leiknum. Varnarmaðurinn Andrea Barzagli meiddist illa í leiknum og missir líkast til af EM. Þá var vinstri bakvörðurinn Domenico Criscito sendur heim vegna spillingarmálsins í ítalska boltanum. Hann neitar þó staðfastlega sök.

Ítalir mæta Evrópu- og heimsmeisturum Spánverja í fyrsta leik sínum í C-riðli á sunnudaginn. Prandelli hefur til þessa treyst á leikkerfið 4-4-2 en á undanförnum æfingum hefur hann unnið með þriggja manna varnarlínu í leikkerfinu 3-5-2.

„Við erum meðvitaðir um slæmt gengi okkar og það væri fáránlegt að reyna ekki að finna lausn á því. Margir hafa aðlagast leikkerfinu á nýafstöðnu tímabili, m.a.s. Daniele hjá Roma," sagði Prandelli á blaðamannafundi landsliðsins í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×