Fótbolti

Danir unnu mjög óvæntan sigur á Hollendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Michael Krohn-Dehli tryggði Dönum óvæntan 1-0 sigur á Hollendingum í dag í fyrsta leik liðanna í B-riðli Evrópumótsins í fótbolta. Danir lifðu af stórskotahríð Hollendinga sem margir voru búnir að spá góðu gengi á þessu móti.

Danir höfðu allt að vinna í þessum leik og lukkan og markvörðuinn Stephan Andersen sáu til þess að Hollendingar nýttu ekki eitthvað af fjölmörgum færum sínum í leiknum.

Hollendingar voru með algjöra yfirburði í upphafi leiks og það virtist bara vera tímaspursmál hvenær fyrsta markið kæmi. Arjen Robben og Robin van Persie voru sem dæmi báðir búnir að fá góð færi í teginum en voru klaufar.

Danirnir héldu hinsvegar út og skoruðu síðan gegn gangi leiksins á 24. mínútu. Michael Krohn-Dehli plataði þá hollensku vörnina skemmtilega og setti boltann undir Maarten Stekelenburg í markinu.

Danirnir fengu mikið sjálfstraust við markið og léku mun betur í kjölfarið en Hollendingar héldu samt áfram að skapa sér færi.

Arjen Robben skaut í stöngina á 36. mínútu, fjórum mínútum síðar átti Ibrahim Afellay skot rétt yfir úr fínu skotfæri og Stephan Andersen varði síðan vel frá Robin van Persie í dauðafæri á 43. mínútu.

Robin van Persie hóf seinni hálfleikinn á því að fá tvö færi með stuttu millibili eftir undirbúning Wesley Sneijder en Van Persie hitti ekki boltann í fyrra færinu og náði bara lausu hægri fótar skoti í því síðara.

Það var sannkölluð stórskotahríð að marki Dana í upphafi seinni hálfleiksins en Danir héldu út og kappið rann af Hollendingunum eftir því sem leið á hálfleikinn.

Hollendingar vildu fá vítaspyrnu á lokamínútu leiksins en ekkert var dæmt þótt að boltinn færi í hendi varnarmanns Dana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×