Fótbolti

Morten Olsen öfundar hollenska þjálfarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morten Olsen.
Morten Olsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins í fótbolta, segist vera örlítið öfundsjúkur út í leikmannahóp Hollands en Danmörk mætir í dag silfurliði síðustu Heimsmeistarakeppni í fyrsta leik sínum á EM 2012.

„Það er alveg hægt að segja að ég öfundi aðeins hollenska þjálfarann og það að ég standi ekki í hans sporum. Þeir eru sigurstranglegir á þessu móti það efast enginn um það," sagði hinn 62 ára gamli Morten Olsen aðspurður út í breidd hollenska liðsins á EM.

„Það er búið að skrifa allt sem hægt er að skrifa um þetta hollenska lið. Þeir eru með frábæra leikmenn í öllum stöðum og á bekknum líka. Þetta er lið fullt af hæfileikum," sagði Olsen.

„Við erum að fara að spila á móti betra liði. Þannig er bara staðan en það þýðir ekki að við gefumst upp fyrir fram. Auðvitað myndum við vilja vera sigurstranglegra liðið því það þýddi bara að við værum með betra lið," sagði Olsen. Holland vann 2-0 sigur á danska liðinu á HM í Suður-Afríku fyrir tveimur árum.

Leikur Hollendinga og Dana fer fram í Kharkiv í Úkraínu og hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×