Fótbolti

Gomez: Þetta var ekkert svo erfitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Gomez skorar hér sigurmarkið sitt.
Mario Gomez skorar hér sigurmarkið sitt. Mynd/AP
Mario Gomez átti frábært tímabil með Bayern München og hann byrjaði vel á EM í fótbolta með því að skora sigurmark Þjóðverja á móti Portúgal í kvöld.

„Ég er búinn að eiga tvö góð tímabil í röð en þetta er búin að vera löng og erfið bið," sagði Mario Gomez eftir leik þegar hann varð spurður út í það að vera alltaf varamaður Miroslav Klose í þýska landsliðinu.

Gomez er búinn að vera markakóngur þýsku deildarinnar undanfarin tvö tímabil og skoraði 12 mörk í Meistaradeildinni á þessu tímabili.

„Ég er mjög ánægður með að þjálfarinn hafði trú á mér og ég gat borgað honum aðeins til baka með þessu marki," sagði Gomez en sigurmark hans kom á 72. mínútu. Gomez skoraði markið sitt um það bil þegar Klose var að gera sig klárann að koma inn á fyrir hann.

„Fyrirgjöfin breytti aðeins um stefnu og lenti beint á skallanum mínum. Þetta var ekkert svo erfitt," sagði Mario Gomez hógvær um markið en hann náði þá frábærum skalla úr erfiðri aðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×