Innlent

Ásmundur: "Hreinlega skil ekki hvað gerðist"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Garður
Garður
Ásmundur Friðriksson, sem rekinn var úr stóli bæjarstjóra í Garði í kvöld, segir að uppsögn sín hafi ekkert að gera með hótanir sem bárust Kolfinnu Magnúsdóttur, bæjarfulltrúa í Garði. Kolfinna sleit meirihlutasamstarfi D-listans og gekk til liðs við N-listann um síðustu helgi. Stuttu eftir það var Kolfinnu hótað líkamsmeiðingum.

„Þessar hótanir eru bara eitthvað rugl sem enginn í okkar hópi kannast við," segir Ásmundur.

Aðspurður um ástæður uppsagnarinnar segir Ásmundur augljóst að nýr meirihluti í Garði hafi viljað losa sig við sitjandi bæjarstjóra. „Kolfinna gekk til liðs við minnihlutann," segir Ásmundur. „Henni hefur greinilega verið í nöp við bæjarstjórann."

Þá segir Ásmundur að uppsögnin hafi komið honum á óvart en hann las upphaflega um það á netinu að til stæði að segja honum upp. Hann segir að samstarf sitt og Kolfinnu hafi verið árangursríkt.

„Ég hreinlega skil ekki hvað gerðist. Við ræddum saman eftir bæjarstjórnarfundinn í kvöld. Þar sagði hún mér að ég hefði átt að finna það á mér að þetta færi svona," segir Ásmundur.

Ásmundur Friðriksson, fráfarandi bæjarstjóri í Garði.
Talið er að skólamál liggi til grundvallar valdaskiptunum í Garði. Í skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét vinna um Gerðaskóla kemur meðal annars fram að pólitískar deilur hafi haft neikvæð áhrif á skólastarfið.

„Kolfinna situr nú í skólanefnd þar sem fjallað er um þessi mál," segir Ásmundur. „Og af þeim 21 fundi sem haldinn hefur verið í nefndinni hefur hún aldrei verið með bókanir eða lýst yfir andstöðu við það sem við höfum verið að gera þar."

„Ég hreinlega skil ekki hvað gerðist. En þetta er búið og gert. Það er búið að reka mig úr vinnunni og þessi fíla bæjarfulltrúa mun kosta bæinn mikið."


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri í Garði rekinn

Ásmundur Friðriksson hefur formlega verið rekinn úr starfi bæjarstjóra í Garði. Aukafundi bæjarstjórnar er nýlokið en uppsögn bæjarstjórans var samþykkt þar.

Fordæma hótanir í garð bæjarfulltrúa

Bæjarfulltrúar D-listans í Garði og Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri fordæma þær árásir sem bæjarfulltrúinn Kolfinna S. Magnúsdóttir hefur mátt þola síðustu daga eftir að hún sagði skilið við meirihlutann og myndaði nýjan meirihluta með L-lista og N-lista. Í samtali við Víkurfréttir í dag segir Kolfinna að sér hafi borist stöðugar símhringingar þar sem hótað er að gengið verði í skrokk á henni. Bæjarstjórinn og bæjarfulltrúar biðja íbúa í Garði að sýna stillingu og virða skoðanir fólks. Kolfinna ætlar að leggja fram kæru hjá lögreglunni á Suðurnesjum vegna hótananna.

Meirihlutinn í Garði fallinn

Meirihlutinn í sveitastjórninni í Garði er fallinn eftir að Kolfinna S. Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna, ákvað í dag að mynda nýjan meirihluta með L lista og N lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×